Ferill 522. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1306  —  522. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um faðernisyfirlýsingu vegna andvanafæðingar og fósturláts.


     1.      Aflar Þjóðskrá Íslands faðernisyfirlýsingar vegna andvanafæðingar eða fósturláts þótt hvorugt sé skráð af stofnuninni, sbr. svör hlutaðeigandi ráðherra á þskj. 529 og 708 á yfirstandandi löggjafarþingi?
    Ráðuneytið aflaði umsagnar frá Þjóðskrá Íslands vegna fyrirspurnarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands aflar stofnunin ekki faðernisyfirlýsinga vegna andvanafæðinga eða fósturláts. Slíkar tilkynningar berast þó einstaka sinnum til Þjóðskrár Íslands en þá er þeim sem tilkynna slíkt sent bréf þar sem skráningu faðernis er synjað.

     2.      Telur ráðherra þörf á að breyta framkvæmd við öflun faðernisyfirlýsingar vegna andvanafæðingar og fósturláts og ef svo er, í hverju yrðu breytingarnar fólgnar?
    Með vísan í fyrri svör dómsmálaráðherra á þskj. 529 á yfirstandandi löggjafarþingi eru börn sem fæðast andvana ekki skráð í þjóðskrá, en börn sem fæðast andvana eftir 22 vikna meðgöngu fá útgefna svonefnda kerfiskennitölu vegna skráningar í fæðingarskrá embættis landlæknis. Í ljósi þess að andvana fædd börn eru ekki skráð í þjóðskrá er hvorki móðerni né faðerni þeirra skráð. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands gefur stofnunin ekki út neina staðfestingu um börn sem fæðast andvana, en slíkar staðfestingar eru einungis gefnar út með læknisvottorði. Eins og kemur hér fram í svari ráðherra aflar Þjóðskrá Íslands ekki faðernisyfirlýsinga vegna andvanafæðinga eða fósturláts en þegar slíkar tilkynningar berast er skráningu faðernis synjað. Ekki liggur ljóst fyrir í hvaða tilgangi Þjóðskrá Íslands þyrfti að afla faðernisyfirlýsingar vegna andvanafæðingar eða fósturláts í ljósi hlutverks stofnunarinnar við almannaskráningu. Ef um er að ræða tiltekin réttindi, svo sem rétt föður til fæðingarorlofs vegna andvana fædds barns þegar foreldrar eru ekki í hjúskap eða sambúð, ber að geta þess að í slíkum tilvikum óskar Fæðingarorlofssjóður eftir yfirlýsingu móður um faðerni barns og faðernisviðurkenningu sem Þjóðskrá Íslands hefur staðfest móttöku á auk ákvörðunar stofnunarinnar. Framkvæmdin hvað það varðar heyrir þó ekki undir dómsmálaráðherra.